Tíu frábærar ástæður til að koma með til Ekvador!

 1. Amazon regnskógurinn

Amazon-svæðið í Ekvador kallast “La Amazonía Ecuatoriana” og nær það yfir austurhluta landsins eða um 40% af flatarmáli Ekvador. Svæðið liggur austan við Andesfjöllin en Amazon regnskógurinn í heild sinni nær yfir 9 lönd og er heildarstærð hans um 5,5 til 6 milljónir ferkílómetra (km²) eða tæplega 14 sinnum stærra en Ísland!

Fjölbreytni Ekvador í dýra- og plöntulífi er mikil og má þakka hana regnskóginum en í landinu má finna fjölda plantna og dýra sem ekki finnast annarsstaðar. Amazon skógurinn gegnir einnig mikilvægu hlutverki í kolefnisbindingu jarðarinnar. 

Í Ekvador eru um 10 frumbyggjaþjóðir í Amazon-svæðinu, m.a.: Kichwa de la Amazonía, Shuar og Achuar, Huaorani (Waorani), Cofán, Siona, Secoya og Zápara
Sum þessara samfélaga hafa enn mjög litla snertingu við nútímasamfélag, en önnur blanda saman hefðum og nútímanum.

 2. Andesfjöllin  

Andesfjöllin ná yfir Ekvador, Perú, Bólivíu, Kólumbíu, Chile og Argentínu og sameinar forna arfleifð Inka og lifandi hefðir frumbyggja sem enn eru við lýði í dag. Andesfjöllin voru hjarta Inkaríkisins (Tahuantinsuyo), sem var helsta menning Suður-Ameríku fyrir landvinninga Spánverja og þar mátti finna háþróaðar þjóðir, eins og Quitu og Canari þjóðflokkana. Eftir að Spánverjar komu til sögunnar á 16. öld blandaðist þessi menning saman og varð að samkrulli hefða, trúar og listar. Enn eru gömul tungumál töluð í Andesfjöllunum og eru einnig notuð í tónlist, trúarathöfnum, ljóðum og frásögnum. Eins og oft gegnir sagnahefðin lykilhlutverki í að varðveita gamla menningu auk listar og handverks en í Andesfjöllunum má finna alpökkurnar en af þeim er unnin ull í vefnað og klæði. Mynstrin eru fjölbreytt og litrík og geyma sögu og hefðir gamalla tíma. 

3. Galapagos-eyjar

Eyjarnar, sem  liggja um 1.000 km vestur af meginlandinu, eru hluti af Ekvador og er þar þjóðgarður.   Þær eru sannkallað náttúruundur, þar eru virk eldfjöll og dýralífið einstakt, eins og Darwin komst að raun um.   Meðal dýra sem þar má finna eru  risaskjaldbökur (Galápagos tortoises), bláfætlinga (blue-footed boobies) sjóígúana (marine iguanas), Galapagossæljón, mörgæsir og hinar frægu finkur Darwins sem urðu svo kveikjan að þróunarkenningu hans.
 

4. Kaffi og kakó  

Kaffi og kakórækt í Ekvador er rík hluti af menningu og arfleifð landsins og er landið eitt fárra landa í heiminum sem framleiðir bæði kaffi og kakó.   

Kaffirækt hófst í Ekvador á 19.öld í Andesfjöllunum en ræktunin dreifðist síðar niður að strönd og inn í Amazon skóginn. Tvær kaffitegundir eru algengastar, Arabica og Robusta. Margir smábændur rækta kaffi í samvinnufélögum þar sem áherslan er á sjálfbærni sem styður við efnahag frumbyggja og kvenna á svæðunum. 

Kakótréð hefur verið notað af frumbyggjum í þúsundir ára, en er spánverjar fluttu kakóið til Evrópu varð það fljótlega þekkt sem hið fljótandi gull!  Í Ekvador er Arriba kakóið ræktað og ber það keim af ávöxtum og hnetum. Líkt og með kaffið, þá er framleiðsla kakós oft í höndum lítilla framleiðenda sem að vinna saman að því að framleiða hágæða kakó með sjálfbærum hætti. 

5. Saga og arfleifð í Quito  

Quito er höfuðborg Ekvador, en hún er í um 2850 m. hæð yfir sjávarmáli í Andesfjöllunum og er þar með sú höfuðborg heims sem liggur hæst á eftir La Paz í Bólivíu. Í  borginni er hægt að heimsækja „Mitad del Mundo“, minnisvarða um miðbauginn sem markar hann.  Spánverjar stofnuðu borgina árið 1534, og varð hún fljótt miðstöð trúar og menningar á nýlendutímanum. Gamli bærinn (Centro Histórico) er á heimsminjaskrá UNESCO og er hann einn best varðveitti bær í Suður-Ameríku.
Helstu kennileiti:
Iglesia de la Compañía de Jesús – Jesúítakirkja gulli skreytt.
Plaza Grande (Plaza de la Independencia) – forsetahöllin í hjarta borgarinnar.
Basílica del Voto Nacional –  gotnesk kirkja þar sem er frábært útsýni yfir borgina.
El Panecillo hæðin  

6. Alpakka ull er gull!

Alpökkur (Alpacas) eru skyldar lamadýrum, en eru minni og með fínni ull. Þeirra heimkynni eru í 3.000–5.000 m hæð, þar sem loftið er kalt og hreint.
Alpökkur eru félagslynd dýr, og hafa verið nýttar í Andesfjöllum í yfir 6.000 ár. Ull þeirra er mýkri en kindaull, hlýrri en kasmír, er ofnæmisfrí, því hún inniheldur ekki lanolin (feiti). Hún andar vel og heldur hita en án þess að verða of heit og er vatnsfráhrindandi og mjúk viðkomu. Ullin kemur í yfir 20 náttúrulegum litum – frá snjóhvítum til brúns og svarts.
Frumbyggjakonur í Andesfjöllum spinna og vefa ullina með hefðbundnum aðferðum sem hafa borist milli kynslóða. Mynstrin í vefnaðinum eru táknræn – oft með merkingu sem tengist fjöllum, dýrum, náttúru og trú. Vefnaðurinn er bæði list og lífsviðurværi og margar konur vinna í samvinnufélögum sem selja vörur sínar beint til ferðamanna og einnig til útflutnings.

7. Eldfjöll

Ekvador liggur mitt á Eldhringnum í Kyrrahafi (Ring of Fire), þar sem jarðskorpuflekar mætast og þar er mikil eldfjallavirkni en í landinu eru um 80 eldfjöll, þar af mörg virk.
Fjöllin mynda “Avenue of the Volcanoes”  ótrúlegt fjallendi í í Andesfjöllunum milli Quito og Cuenca.

  • Cotopaxi (5.897 m): eitt hæsta virka eldfjall heims – tákn landsins.
  • Chimborazo (6.268 m): hæsta fjall Ekvadors. Vegna lögunar jarðar er tindurinn næst sólinni af öllum stöðum jarðar!  
  • Pichincha: við Quito 
  • Tungurahua og Reventador: virk eldfjöll sem hafa gosið á síðustu árum.

 8. Handverk

Handverk í Ekvador  sameinar forna visku, litadýrð og listfengi frumbyggja.
Það er meira en bara list heldur frekar leið fólks til að segja frá sjálfu sér, samfélagi sínu og hvernig allt tengist náttúrunni. Handverk í Ekvador á þúsunda ára sögu og hafa

frumbyggjaþjóðir eins og Kichwa, Shuar, Cañari og Tsáchila  varðveitt hefðir í vefnaði, leirlist, gullsmíði og körfugerð.
Hvert svæði í landinu hefur sinn eigið stíl og sérþekkingu – oft byggða á efnum úr náttúrunni í kring. Litrík mynstur einkenna handunnin og ofinn vefnað og textíl, á keramikið eru forn mynstur mótuð, oft í rauðu, gulu og svörtu og tákna mynstrin oft dýr, guði eða andlegar verur. Skartgripir eru gerðir úr fínlegu silfri og einnig eru fræ og steinar nýttir til að búa til skartgripi. 

9. Maturinn !!

Það sem er svo spennandi við ferðalög til framandi landa er maturinn !! Í Ekvador má skipta matarhefðinni í fernt, eftir svæðum. Í Andes fjöllunum er helsta hráefnið kartöflur, maís, kínóa, lárpera og ostur. Dæmigerðir réttir eru kartöflusúpa, kartöflukökur fylltar með osti, hornado svínakjöt og naggrís.

Við ströndina er áherslan á nálægð við sjóinn og því er fiskmeti þar í aðalhlutverki ásamt bönunum, kókósmjólk, lime og mais. Dæmigerðir réttir væru Ceviche, hrár fiskur með lime og kryddi, enconchado, fiskur/rækja í kókóssósu og empanadas, djúpsteiktar bökur. 

Á Amazon svæðinu má finna mat sem tengist því hráefni sem finnst þar og hefðum Amazonbúa, fiskur úr ánni, kassava og afbrigði af banana. Dæmi um mat væri fiskur vafinn í laufblöð og grillaður, lirfuréttur og náttúrulegur jurtadrykkur.

Þegar komið er til Galapagos eyja þá einkennist fæðan af sjávardýrum, fersku grænmeti og ávöxtum. Þar má nefna grillaða túnfisksteik (atún a la parrilla), humar og rækjur ásamt ávöxtum, passion, mangó, papaya og banana.  

10. Vinalegt og gestrisið fólk!

Síðast en ekki síst, þá er fólkið í Ekvador opið, vingjarnlegt og stolt af menningu sinni. Þau taka vel á móti gestum og eru forvitnir um hag þeirra og hvaðan þeir koma. Þau eru stolt af landinu sínu, menningu, náttúru og mat og elska að deila með gestum því sem landið hefur uppá að bjóða. 

Allt þetta og meira til munum við upplifa í ferðinni okkar.  Pakkaðu í töskuna og komdu með!

Skoðaðu dagskrána til Ekvador hér: