Andleg ritsmiðja í hrífandi náttúru Hornstranda

Ferðalýsing
Upplifðu magnaða náttúru Hornstranda og finndu þína innri hetju
Fiðrildaferðir og Stílvopnið taka nú höndum saman og bjóða upp á spennandi ferð til Hlöðuvíkur á Hornströndum.
Björg Árnadóttir heldur utan um Hetjuferðarnámskeið og leiðir þig til stefnumóts við þína innri hetju.
Inn í námskeiðið fléttast svo gönguferðir og útivera í óviðjafnanlegu og ósnortnu umhverfi Hlöðuvíkurinnar. Hollur og staðgóður morgunmatur, hádegishressing og kvöldmatur innifalinn ásamt ferðum til og frá Hlöðuvík.
Um Hlöðuvík
Á milli Kjalárnúps í Almenningum vestari og Hælavíkurbjargs liggja þrjár víkur, Kjaransvík, Hlöðuvík og Hælavík. Þær eru kallaðar einu nafni Víkurnar.
Inn af Hlöðuvík gengur dálítið dalverpi inn í landið, umkringt af snarbröttum fjöllum. Að austan stendur Skálakambur og þar undir var býlið Búðir. Ókennilegur draugur, kallaður Indriði, gengur þar um að nóttu til og heldur fólki vöku með ýmsum hávaða.
Landleiðin frá Hlöðuvík til Hælavíkur liggur um snarbrattan Skálakambinn, sem vel getur verið brattasta alfaraleið sem farin var milli bæja á Íslandi. Greinileg og góð gata liggur upp Skálakamb sem virðist ekki árennilegur úr fjarlægð og í Skálinni er tjörn sem lækur fellur úr niður brekkuna. Þegar komið er að bjargbrúninni þarf að klífa ofurlitla kletta, en það ætti ekki að vera neinum ofraun. Geysilega mikið og gott útsýni er ofan af brúninni yfir Víkurnar.
Að vestanverðu í Hlöðuvík er Álfsfell. Þar er álfabyggð og þar bjó álfkonan Ásdís sem létti Hlöðuvíkurbúum róðurinn með því að bjarga mannfólkinu um mat og segja til um afla. Gekk hún jafnvel svo langt að taka tvö mannabörn í fóstur. Í dalbotninum er skeifulaga fjallgarður kenndur við Jökuldali.
Undir Álfsfelli stóð bærinn Hlöðuvík þar sem í dag má sjá sóleyjar þar sem áður voru grösug tún. Gönguleið er frá Hlöðuvík um Hlöðuvíkurskarð yfir í Veiðileysufjörð í Jökulfjörð.
Aðstaðan
Tvö hús eru í Hlöðuvík, Búðabær og Búðasel.
Í húsunum er allt sem þarf til heimilishalds, þannig að ekkert þarf að taka með sér í þeim efnum. Á staðnum eru fjögur vatnssalerni og þrjár sturtur. Sturturnar eru kynntar með gasi og því er mikilvægt að taka stuttar sturtuferðir. Í Búðabæ og Búðaseli er gist á svefnloftum á flatsængum. Þar eru nægar dýnur fyrir alla, en hver gestur þarf að hafa með sér svefnpoka, kodda og lak. Húsin eru kynnt með viðarkamínum. Hægt er að hlaða rafmagnstæki á 12 volta tengingum og einnig hraðar þegar díselvél er ræst.
Aðkoma að húsunum
Aðkoman að húsunum í Hlöðuvík er krefjandi. Lent er í fjöru á gúmmíbát þar sem geta verið sleipir steinar og þang. Allir gestir þurfa að hjálpast að við affermingu og vera viðbúnir því að bera farangur og kost upp á bakka, þaðan sem öllu er komið fyrir í húsin. Neyðarsími og talstöðvar eru í báðum húsum.
Umgengni
Allir gestir taka þátt í að ganga vel um skálana og halda þeim huggulegum, þannig að það fari vel um alla. Verkstjórar munu úthluta verkefnum þannig að allir taki jafnan þátt í frágangi, sérstaklega í eldhúsi.
Útbúnaðarlisti
Hver gestur má taka með sér eina 70–90 lítra sjótösku. Allt sem hann/hún telur sig þurfa í óbyggðum þarf að rúmast í hana. Að auki þarf hver gestur að vera með einn lítinn dagpoka sem rúmar nauðsynjar fyrir dagsgöngur.
Svefnpoki
Kodda
Lak
Útivistarföt (þriggja laga) Athugið að kalt getur orðið á Hornströndum á þessum tíma árs)
Gönguskór
Inniskór (Crocs bestir, léttir og líka hægt að nota í sjóinn)
Handklæði
Sundföt
Hleðslubanka fyrir síma/myndavélar (hlaðið öllu niður áður en farið er í sambandleysi)
Lyf (ef með þarf)
Tannbursta, tannkrem, varasalva, sólarvörn, krem, sjampó og næring í míní umbúðum, eyrnatappa
Annað sem þú telur mikilvægt
Fyrirvari og staðfestingargjald
Staðfestingargjald er 30.000 og er óendurkræft nema að ferð verði felld niður.
Fiðrildaferðir áskilja sér rétt til að aflýsa ferðinni ef að lágmarksfjöldi næst ekki eða að veður hamlar bátsferðum. Í þeim tilfelli er gjaldið endurgreitt að fullu.
Lágmarksfjöldi í ferðina er 10 manns.
