Hetjuferð í Hlöðuvík
Andleg ritsmiðja í hrífandi náttúru Hlöðuvíkur á Hornströndum
Fiðrildaferðir, í samvinnu við Stílvopnið, bjóða upp á einstakt námskeið í Hlöðuvík á Hornströndum dagana 17. ágúst til 21. ágúst 2025.
Á námskeiðinu fara þátttakendur í hetjuferðalag þar sem áskoranir hetjunnar eru skoðaðar, rýnt er í sögu og andlegt ferðalag þeirra til meiri þroska.
Björg Árnadóttir er leiðsögukona hetjuferðarinnar, sjá upplýsingar hér
Hlöðuvík er tilvalinn staður fyrir andlegt ferðalag sem þetta, náttúrufegurð, kyrrð og ró frá amstri dagsins.
14 pláss í boði - skráðu þig með því að smella hér
-
Hetjuferðin (The Hero’s Journey) er ævaforn frásagnaraðferð, þrungin andlegri visku og sálfræðilegri dýpt. Í Hlöðuvík skoðum við áskoranir hetjunnar og skrifum sögur sem dýpka skilning okkar á andlegu ferðalagi bæði hetjunnar og höfundarins.
Hetjuferðin er þroskaferðalag. Ferðin hefst í hinum þekkta heimi hversdagsins þar sem hetjan heyrir innra eða ytra kall til breytinga og þráin eftir einhverju dýpra vaknar. Hetjan stígur inn í heim ævintýrisins þar sem hún mætir ótal hindrunum en eflist við hverja raun og öðlast nýja sýn á sjálfa sig og lífið. Þegar hún snýr umbreytt tilbaka til síns þekkta heims hefur hún öðlast gjöf sem gagnast ekki aðeins henni sjálfri heldur samfélagi hennar öllu.
Þú þekkir þennan þroskarhring úr trúartextum, ævintýrum, fantasíum og kvikmyndum en ekki síður úr lífssögum fólks, þinni eigin og annarra. Í Hlöðuvík horfumst við í augu við hindranir okkar, stígum inn í ævintýrið og öðlumst gjöf aukins þroska. Reynslan er í senn ögrandi og ákaflega skemmtileg
-
Leiðsögumaður í Hetjuferðinni er Björg Árnadóttir, ritlistarkennari og eigandi Stílvopnsins. Björg hefur tvisvar farið í gegnum sjö daga Hetjuferðarþjálfun sem leikhússmaðurinn Paul Rebillot skapaði: "The Hero’s Journey: A Rite of Passage". Á námskeiðinu fléttar hún þeirri reynslu saman við fjörutíu ára kennslureynslu sína og hugmyndir og aðferðir goðsagnafræðingsins Joseph Campbell, geðlæknisins Carl Jung, handritshöfundarins Christopher Vogler, rithöfundarins Juliu Cameron og Tólf spora aðferðarinnar.
Ekki þarf að þekkja neina af þessum aðferðum fyrirfram.
-
Smiðjan er 16 klukkustundir og er hámarksfjöldi 14, byrjendur og lengra komnir.
Kennt er fjóra morgna, fjórar klukkustundir í senn. Í tímaleysi Hlöðuvíkur er svo hægt að halda áfram að íhuga skrif sín í samtali við eigið sjálf, félagana og náttúruna.
Dagur 1
Kl.9.00-13.00 Hugmyndafræði hetjuferðinnar kynnt og hetjan sköpuð.
Kl.14.00 - Frjáls tími
Dagur 2
9.00-13.00 Hetjan heyrir kall sitt og horfist í augu við innri hindranir.
Kl. 14.00 Gengið í Hælavík og lesið úr verkum skáldkonunnar Jakobínu Sigurðardóttur.
Dagur 3:
9.00-13.00 Hetjan tekst á við þroskaverkefni í heimi ævintýrisins.
Kl.14.00 - Frjáls tími, ganga, slökun, sjóbað.
Dagur 4
Kl.9.00-13.00 Hetjan snýr umbreytt aftur til síns heima með gjöf sem gagnast samfélagi hennar öllu.
14.00 - Frjáls tími, ganga, slökun, sjóbað
Kvöldvaka með upplestri úr verkum þátttakanda ásamt öllu öðru sem okkur dettur í hug.
-
Siglt verður með Sæferðum þann kl. 17.ágúst og tekur siglingin um það bil 3 tíma.
Þegar komið er til Hlöðuvíkur eru farþegar og farangur selflutt í bát en ekki er bryggja til staðar.Gist er í Búðabæ og er um svefnpokapláss að ræða.
Taka þarf allan mat með og þurfa þátttakendur að taka þátt í að bera mat í hús.
-
Húsin í Hlöðuvík eru tvö: Búðabær og Búðasel. Gestir hafa aðgang að fjórum vatnssalernum og tveimur sturtum. Ísskápur er í báðum húsum, sem og fjórar gashellur til eldunar. Svefnloft eru í báðum húsunum og rúma þau um 7–8 manns hvort, þar eru dýnur fyrir alla, en hver gestur þarf sjálfur að koma með lak, svefnpoka og kodda. Á neðri hæðum eru stofur og eldhús, þar sem allur borðbúnaður er til staðar. Húsin eru hituð með kamínum, og rafmagn er til staðar en í mjög takmörkuðu magni. Aðgengi að húsunum: Þegar komið er í Hlöðuvíkur með báti, þarf að flytja allan mat og farangur yfir í fjöruna með gúmmíbát. Þaðan þarf svo að bera allt sjálfur upp í húsin, sem eru í um það bil 100 metra fjarlægð frá fjöruborðinu. Mikilvægt er að hafa í huga að fjaran getur verið blaut og sleip, svo stundum getur þetta reynt á og verið áskorun að koma öllu á milli. Gestir þurfa því að vera vel undirbúnir fyrir aðstæðurnar.
-
Á meðan dvölinni stendur mun skálavörðurinn Bjarney Lúðvíksdóttir sjá um eldamennskuna – en uppvask og frágangur fer fram á heimilislegan hátt, með þátttöku allra.
Matseðillinn verður kynntur fyrir brottför, og þeir sem eru á sérfæði fá tækifæri til að taka með sér þau matvæli sem þeir kjósa að neyta.
Boðið verður upp á:
Morgunverðarhlaðborð
Hádegishressingu og göngunasl
Heitan kvöldmat
Ef þig langar að skála eða poppa upp kvöldkakóið, þarftu að taka vínanda með þér sjálf/ur. -
Gönguskór
Ullarföt og útivistarfatnaður – fyrir göngur og kvöldin inni.
Inniskór, t.d. Crocs – henta líka vel í sjóinn.
Sundbolur, ef þig langar að hoppa í sjóinn.
Eyrnatappar, góð hugmynd ef þú vilt tryggja svefn í svefnloftinu.
Sögur og slökun – niðurhalaðu uppáhalds svefnsögunum þínum.
Lyf, snyrtivörur og handklæði – og ekki gleyma brosinu!
Verð pr. mann
190.000
Innifalið
Námskeið og námskeiðsgögn
Sigling með Sjóferðum til Hlöðuvíkur
Gisting í fjórar nætur í svefnpokaplássi
Fæði í 5 daga (morgunverður, hádegishressing/göngunasl og kvöldverður)
Ekki innifalið
Ferðir til og frá Ísafirði
Gisting á Ísafirði
Drykkir og sérfæði (ef þarf)
Skráðu þig í ferðina með því að smella hér
Björg Árnadóttir, leiðbeinandi og eigandi Stílvopnsins